Fjallgöngum haustsins lokið

Í gær gengu nemendur og starfsmenn Hvolsskóla ásamt þeim foreldrum sem slógust í för með hópunum, á fjóra tinda í héraði en sú ganga er liður í svokallaðri Tíu tinda göngu nemenda. Nemendur sem ljúka 10 ára grunnskólagöngu við skólann eiga að ná jafnmörgum tindum á þeim árum. Hér með hefur fyrsti hópurinn okkar lokið 10 tinda göngu en nemendur í 10. bekk voru einmitt í 1. bekk þegar við hófum þetta verkefni.

Nemendur í 1. bekk gengu venju samkvæmt á Stóra-Dímon, 2.-4. bekkur á Lambafell, 5.-7. bekkur á Fagrafell og 8.-10. bekkur á Drangshlíðartind /Dalstind í blíðu veðri.

Þetta verkefni er ekki bara skemmtilegt og frábær hreyfing og útivera, það er ekki síður tækifæri til að efla seiglu og þrautseigju þar sem þú þarft að hafa fyrir því að komast upp á topp en ánægjan er margföld þegar þú stendur í lok göngunnar á efsta toppi eftir að hafa sigrað sjálfan þig. Þó að í erfiðustu göngunum fari ef til vill ekki allir á efsta toppinn þá fara þeir þó engu að síður á sína toppa og jafnvel mun lengra en þeir áttu von á. Þar með sigra þeir sjálfa sig og efla.

Það voru roggnir göngugarpar sem gengu niður allar þessar hlíðar í gær og ánægður getur hópurinn bent á tindana og haft eftir skáldinu Tómasi Guðmundssyni: „…sjáðu tindinn, þarna fór ég!“