Eineltisáætlun

Aðgerðaráætlun Hvolsskóla í eineltismálum má nálgast í heild sinni með því að opna PDF-skjalið sem er vistað hér á eftir


Stefnuyfirlýsing

Hvolsskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju og áhersla er lögð á að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt.


Hvað er einelti?

Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt þar sem einn eða fleiri niðast á öðrum. Einelti getur birst í mörgum myndum þótt algengast sé að flokka það í andlegt- og / eða líkamlegt ofbeldi.

Einelti birtist í mörgum myndum, það getur verið:

  • Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar.
  • Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni.
  • Skriflegt: tölvuskeyti, sms – skilaboð, bloggsíðuskrif, krot og bréfasendingar.
  • Óbeint: baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi. Augngotur og svipbrigði.
  • Efnislegt: eigum barnsins stolið eða þær eyðilagðar.
  • Andlegt: þegar barnið er þvingað eða hvatt til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn vilja þess.

Foreldrar hafið hugfast!

  • Einelti viðgengst oft vegna þess að nemendur vilja ekki vera stimplaðir sem klöguskjóður.
  • Ræðið við börnin ykkar um muninn á því að klaga og segja frá.
  • Með því að segja frá er hugsanlega verið að koma öðrum, sem líður illa, til aðstoðar.
  • Mikilvægt er að fylgjast vel með tölvu- og símanotkun barna.

Foreldrar – er barnið þitt lagt í einelti?

Hugsanlegar vísbendingar:

  • barnið virðist einangrað eða einmana.
  • barnið vill ekki fara í skólann.
  • einbeitingarörðugleikar, barnið hættir að sinna námi og einkunnir lækka.
  • barnið er hrætt við að ganga eitt í skólann eða heim
  • breytingar á skapi, tíður grátur, viðkvæmni.
  • árásargirni og erfið hegðun.
  • lítið sjálfstraust, hræðsla, kvíði, svefntruflanir, líkamlegar kvartanir.
  • breyttar matarvenjur, lystarleysi eða ofát.
  • áverkar, rifin föt eða skemmdar eigur.
  • barnið týnir peningum eða öðrum eigum.
  • barnið forðast ákveðnar aðstæður í skólanum, t.d. leikfimi og sund, félagsstörf.
  • barnið neitar að segja frá hvað amar að.

Hvað getið þið gert?

  •  rætt við og hlustað á barnið segja frá skólanum.
  • kynnt ykkur viðbragðsáætlun skólans gegn einelti.
  • haft samband við umsjónarkennara eða stjórnendur skólans.
  • brugðist við vanda barnsins með umhyggju.
  • látið barnið finna að það á ekki sök á eineltinu.

Foreldrar – er barnið þitt gerandi?

Hugsanlegar vísbendingar

  • barnið er árásargjarnt og sýnir yfirgang.
  • barnið uppnefnir, stríðir og hótar.
  • barnið stjórnar vinum og útilokar úr vinahópnum.
  • barnið er ógnandi í samskiptum.
  • barnið talar niðrandi um aðra.

Eineltismál

Deildarstjóri og umsjónarkennari taka á eineltismálum þegar þau koma upp. Í alvarlegri tilfellum er þeim vísað til Nemendaverndarráðs.

Viðbrögð

Eineltismál sem upp koma eru ólík. Því verður að miða viðbrögð við hvert einstakt tilfelli. Nauðsynlegt er að bregðast strax við og setja af stað ákveðið vinnuferli.

Vinnuferli skólans skiptist í:

  • Könnunarferli
  • Framkvæmdaferli
  • Eftirfylgd

Ef upp kemur grunur um einelti í skólanum skal viðkomandi tafarlaust hafa samband við umsjónarkennara nemandans. Umsjónarkennari kannar málið og gerir allt til að leysa það. Ef í ljós kemur að um einelti er að ræða vinna viðkomandi umsjónarkennari og skólastjórnendur saman að því að búa til sérsniðna áætlun til að uppræta eineltið strax. Fer það eftir eðli málsins til hvaða aðgerða verður gripið.

Ferli eineltismála:

Könnunarferli:

  1. Grunur um einelti tilkynnist til umsjónarkennara og skólastjórnenda á þar til greindu eyðublaði. Eyðublaðið fæst hjá skólaritara.
  2. Umsjónarkennari gerir foreldrum viðvart og biður þá um að fylgjast með líðan barnsins í ákveðinn tíma. Þeir ræða við barnið daglega og skrá, með skipulögðum hætti, það sem fram kemur.
  3. Umsjónarkennari leitar eftir frekari upplýsingum frá kennurum, starfsfólki skólans, foreldrum og nemendum og skráir með formlegum hætti.
  4. Umsjónarkennari heldur fund með kennurum og starfsmönnum sem annast viðkomandi nemanda. Allir starfsmenn fylgjast með þolanda og geranda í ákveðinn tíma og halda skrá yfir það sem þeir verða varir við. Umsjónarkennari safnar saman skráningum og metur alvarleika málsins í samráði við foreldra.

Framkvæmdaferli:

  1. Umsjónarkennari ásamt deildarstjóra ræða einslega við geranda og þolanda.
  2. Foreldrar þolanda og geranda hafa verið upplýstir og þeir taka þátt í áætlun sem gerð verður. Þá er þeim bent á hvaða úrræði skólinn hefur til aðstoðar s.s. sálfræðingur.
  3. Ef um slæmt einelti er að ræða vinnur Nemendaverndarráð að upprætingu þess og kynnir áætlun um það fyrir starfsmönnum skólans.

Eftirfylgd:

Regluleg viðtöl við málsaðila eins lengi og þurfa þykir. Umsjónarkennari og deildarstjóri koma að málum og halda viðeigandi skráningu um málið.

Forvarnir.

Mikilvægt er að börn séu alin upp við jákvæða athygli. Í Hvolsskóla er lagt upp með umburðarlyndi og að virðing sé borin fyrir öðrum.

Áherslur skólans og fyrirbyggjandi aðgerðir:

  • Áhersla á jákvæðan og lýðræðislegan brag.
  • Öflugt samstarf heimilis og skóla frá upphafi skólagöngu.
  • Reglulegar heimsóknir frá sérfræðingum sem koma að eineltismálum og öðrum sem hafa orðið fyrir einelti. Að minnsta kosti á þriggja ára fresti.
  • Opin umræða um einelti í bekkjardeildum. Hvetja nemendur til að segja frá.
  • Stuðningur við kennara og aðra starfsmenn með menntun og fræðslu.
  • Árlegar kannanir þar sem spurt er um líðan. Ef kannanir benda til þess að einelti eigi sér stað ættu skólastjórnendur að senda bréf til foreldra og kalla eftir frekari upplýsingum.
  • Nýir nemendur fái ávallt aðstoðarmenn úr þeirri bekkjardeild sem þeir koma í.
  • Gott samstarf á milli bekkjardeilda.
  • Góð aðstaða og góðar leikjastöðvar í frímínútum.
  • Virk gæsla í vinnuhléum, á göngum, í matsal, á útisvæðum og íþróttahúsi.
  • Skilvirkt upplýsingaflæði.
  • Regluleg endurskoðun á aðgerðaáætlun Hvolsskóla gegn einelti. Endurskoðun fari fram á að minnsta kosti þriggja ára fresti.

Ábendingar til umsjónarkennara

  • Bekkjarsáttmáli gerður með bekknum.
  • Nemendur minntir á hlutverk þeirra á göngum, í matsal, í íþróttahúsi, í sundlaug, á skólasvæði og í ferðalögum.
  • Umsjónarkennarar ræða við nemendur um ýmis mál og leysa úr ágreiningsmálum ef það á við.
  • Eftirlit haft með líðan nemenda í skólanum.
  • Nemendur og foreldrar skulu láta vita ef grunur er um einelti.
  • Tengslakönnun er gerð í bekkjum árlega.