Vorhátíð

Að loknum skemmtilegum þemadögum í Hvolsskóla fór fram Vorhátíð Foreldrafélags Hvolsskóla rétt í þessu. Viðburðurinn hófst í íþróttahúsinu kl. 16 í dag með því að aðilar úr sýningunni Litlu-Hryllingsbúðinni sem sett var upp af Tónlistarskóla Rangæinga á dögunum, sýndu brot úr sýningunni og sungu nokkur lög. Dregið var í Bókaverðlaunum barnanna að vanda og síðan var dansað. Jón Pétur var hjá okkur í síðustu viku og fóru allir árgangar í dans daglega í þrjá daga. Afraksturinn fengum við að sjá áðan og var hann venju samkvæmt frábær. Undir sjórn Jóns Péturs drógu nemendur foreldra sína út á gólfið og ansi fjölmennur og fjörgugur hópur tók meðal annars fugladansinn af mikilli snilld.

Að lokinni dagskrá í íþróttahúsinu stóð foreldrafélagið fyrir vöfflu og pylsu sölu í sal skólans og gafst gestum færi á að ganga um skólann og skoða þar verkefni meðal annars frá þemadögum.

Á þessum síðasta degi vetrar þökkum við fyrir veturinn og óskum ykkur öllum gleðilegs sumars.