Mæling á Sólheimajökli 2021

Í dag fóru nemendur í 7. og 8. bekk að Sólheimajökli til að mæla hop hans á árinu. Ástæða þess að tveir bekkir fóru núna er að í fyrra komst 7. bekkur ekki vegna ýmissa ástæðna. Þá fóru nokkrir nemendur ásamt Stjörnu Sævari og er sú mæling sem þá var gerð til fyrir árið 2020. Í för með hópnum í dag slóst Sigrún Stefánsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri ásamt norrænum blaðamönnum. Jón Stefánsson fyrrum verkefnastjóri Grænfánans við Hvolsskóla var einnig með í för en hann hefur verið við mælingarnar frá upphafi. Venju samkvæmt aðstoðaði Björgunarsveitin Dagrenning okkur við verkið og kunnum við þeim nú sem fyrr bestu þakkir fyrir.

Í ár mældist hop jökulsins 11 metrar frá árinu 2020 og hefur hann því hopað um 408 metra frá því að mælingar hófust haustið 2010.