Dagur 1

Í dag hófst kennsla að nýju eftir að nýjar reglur almannavarna tóku gildi. Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarna daga við að endurskipuleggja skólastarfið samkvæmt þessum reglum. Í Hvolsskóla mæta nemendur 1. – 4. bekkjar alla daga og halda sinni stundaskrá nokkuð óbreyttri. Nemendur í 5.-7. bekk mæta sömuleiðis alla daga en dagur þeirra er þó lítillega skertur á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum þar sem við ljúkum kennslu í þeim árgöngum kl.13:20 þá daga. Nemendur í 8.-10. bekk koma í skólann annan hvern dag á meðan þetta ástand varir. Í dag mætti 8. bekkur og stundaði sitt nám í Félagsheimilinu Hvoli en einnig mætti annar helmingur 9. bekkjar og var hér í skólanum. Á morgun verða nemendur 10. bekkjar í Hvolnum en hinn helmingur 9. bekkjar hér í húsi.

Það eru orðin nokkuð mörg ár síðan nemendur Hvolsskóla sátu kennslustundir í Hvolnum þó það hafi tíðkast hér áður. Síðast þreyttu þar líklega nemendur samræmd próf fyrir hart nær 20 árum. Engu að síður hjálpar það okkur í Hvolsskóla við að geta haldið úti sem mestri kennslu að hafa þennan möguleika og vera með hluta kennslunnar í félagsheimilinu og reyndist þetta ágæt lausn í dag.

Í morgun mættu nemendur og starfsmenn í hús með grímur fyrir vitum og þannig höfum við mætt hvert öðru hér í dag og er það til marks um að við lifum sérstaka tíma. Fjarlægð er haldið á milli nemenda frá 5. bekk og upp úr og hljótum við þessi eldri að geta sett okkur í þau spor að það er erfitt að halda sig fjarri vinum. Krakkarnir standa sig samt sem áður með stakri prýði og eiga þeir hrós skilið ekki síður en starfsmenn sem standa vaktina og foreldrar sem aðlaga sig breyttum forsendum. Í sameiningu komumst við í gegnum þennan skafl og getum vonandi átt gleðilega jólahátið með fólkinu okkar.