Þriðjudaginn 23. maí fóru fram skólaslit Hvolsskóla og útskrift 10. bekkinga. Skólaslitin voru hátíðleg og þarna uppskáru börnin eftir vetrarstarfið og fóru heim með einkunnir sínar og umsagnir að athöfn lokinni. Veitt voru verðlaun að vanda á skólaslitunum en foreldrafélag Hvolsskóla veitir einu barni á hverju stigi viðurkenningu fyrir Háttprýði, ástundun og framfarir í námi. Að þessu sinni var það Sigurður Ingvar Waage Geirsson sem hlaut þá viðurkenningu á yngsta stigi og Saga Ársælsdóttir á miðstigi. Á elsta stigi var það Kristján Birgir Eggertsson sem hlaut viðurkenninguna. Kvenfélagið Eining veitir tveimur nemendum í 7. bekk viðurkenningu fyrir góðan árangur í textílmennt og smíðum. Að þessu sinni voru það þau Kuba Maczka og Nikola Lis sem hlutu viðurkenningar.
Við óskum öllum okkar nemendum til hamingju með þann áfanga sem þau hafa náð og hlökkum til að hitta þau aftur í ágúst.
Það voru 22 nemendur sem útskrifuðust eftir tíu ára grunnskólagöngu þennan dag og fór sú athöfn fram í Hvolnum að viðstöddu fjölmenni. Útskrift er alltaf falleg stund, það er verið að ljúka kafla sem vonandi var öllum ljúfur þó stundum hafi þurft að setja undir sig hausinn, og það er nýr kafli að taka við. Verðlaun voru veitt við athöfnina. Fyrir hæstan árangur í íslensku veitir Minningarsjóður Margrétar Auðunsdóttur viðurkenningu en það var hún Guðný Ósk Atladóttir sem hlaut þá viðurkenningu. Danska sendiráðið veitir þeim nemanda sem hæst stendur á lokaprófi í dönsku viðurkenningu og það var hún Ólafía Ragnheiður Þórðardóttir sem hlaut þá viðurkenningu.
Jafnframt var að frumkvæði starfsmanna á elsta stigi ákveðið að veita viðurkenningu í anda ART kennslunnar sem og viðfangsefna Verkefnakistunnar. Viðurkenningin ber heitið Jákvæður leiðtogi og eru veitt þeim nemanda sem er talinn skara fram úr í þeim efnum. Jákvæður leiðtogi er aðili sem fær aðra með sér í jákvæð verkefni og öðrum líður vel í kringum. Að þessu sinni var það hún Ólafía Ragnheiður Þórðardóttir sem hlaut þá viðurkenningu.
Við óskum öllum útskriftarnemendum og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með áfangann.
Við skólaslit kvöddum við starfsmenn sem ætla að hverfa að öðrum verkefnum í haust eða hætta kennslu. Hildur Ösp Garðarsdóttir hefur ákveðið að flytja með fjölskyldu sína að nýju til Danmerkur í haust og verður því ekki hjá okkur áfram. Henni þökkum við gott samstarf liðinna ára og óskum henni velfarnaðar í nýjum verkefnum.
Auður Friðgerður Halldórsdóttir kvaddi okkur en hún ákvað að hætta kennslu eftir 43 ár við það starf og þar af 30 ár við Hvolsskóla. Eins kvöddum við Bergrúnu Gyðu Óladóttur sem starfað hefur við Hvolsskóla í 22 ár en í 45 ár hjá sveitarfélaginu, bæði í grunn- og leikskóla. Þeim stöllum báðum er þakkað frábært starf í gegnum tíðina og óskum við þeim velfarnaðar í framtíðinni. Þær hafa komið að uppeldi margra kynslóða hér í héraði.
Breytingar eru einnig á skólaaskstri næsta haust en Baldur Ólafsson hefur ákveðið að hverfa til annarra verkefna. Helgi Helgason hefur verið með leyfið fyrir Austur-Landeyjar í áratugi og hefur Haraldur Konráðsson keyrt fyrir hann undanfarin ár. Helgi hættir nú í vor með leyfið og þá möglega sjáum við á eftir Halla úr akstrinum í vor. Guðrún Inga Sveinsdóttir hættir einnig akstri skólabíla í vor en þau hjónin, Inga og Ási í Skógum hafa verið við skólaakstur í 55 ár. Öllum þessum bílstjórum er þakkað gott starf á liðnum árum og óskað velfarnaðar í framtíðinni.
Við skólaslit í vor afhenti fjölskylda Ólafar Bjarnadóttur, fyrrum kennara við Hvolsskóla, skólanum gjöf í minningu hennar. Fjölskyldan stóð fyrir hreyfiátaki í hennar nafni í maí þar sem safnað var mínútum fyrir Ólöfu sem hefði orðið 40 ára þann 24. maí. Samhliða var peningum safnað sem fara áttu í að styrkja ISAT kennslu, það er kennslu í íslensku sem öðru tungumáli, við Hvolsskóla en Ólöf vann einmitt við slíka kennslu síðustu árin sín. Það voru þau Lárus Viðar Stefánsson eiginmaður Ólafar og dætur þeirra, Fanndís Lilja og Kara Kristín, ásamt móðursystur þeirra, Unni Lilju Bjarnadóttur sem færðu skólanum söfnunarféð. Alls voru skráðar 83.377 mínútur í átakinu sem jafngilda um 58 sólarhringum. Einnig söfnuðust 903.830 krónur sem skólanum voru afhentar til að efla ISAT kennsluna.
Við þökkum kærlega höfðinglega gjöf og hlýjan hug. Þessir peningar verða nýttir í minningu elsku Ólafar; hennar er alltaf saknað og minnst.
Við í Hvolsskóla óskum ykkur öllum góðs sumars og hlökkum til að sjá ykkur aftur í ágúst. Hafið það gott.