Öskudagsfréttir úr Hvolsskóla

Þá er öskudegi lokið þetta árið og var hann heldur óvenjulegur. Þar sem heimsóknir á milli fyrirtækja eru ekki heppilegar á þessum tímum tókum við á það ráð í góðri samvinnu við stofnanir og fyrirtæki að færa öskudaginn alfarið inn í skólann.

Dagurinn hófst kl. 8:00 í morgun þegar uppáklæddir nemendur og starfsmenn mættu hingað galvaskir. Nemendur byrjuðu daginn í stofum með umsjónarkennurum en eftir frímínútur var farið „á röltið“ á milli fyrirtækja – innanhúss. Nítján fyrirtæki og stofnanir í héraði tóku þátt og sendu nemendum glaðning inn í skólann og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Básar voru settir upp á víð og dreif um skólann og stóðu starfsmenn vaktina fyrir það fyrirtæki sem „átti“ básinn. Nemendur sungu fyrir starfsmenn og fengu að launum glaðning í pokann sinn. Hér ómaði margskonar söngur í dag; Bubbalög, Covid söngvar og klassískur Gamli Nói svo eitthvað sé nefnt. Upp úr klukkan 11 var farið í marseringu í kringum skóla og íþróttahús og fór formaður nemendaráðs, Heiðar Óli Jónsson ásamt fylgismönnum, í broddi fylkingar. Báru þeir með sér stærðar hátalara svo marserað væri við undirleik.

Að lokinni marseringu fengu nemendur pylsur í boði SS og tilkynnt var um verðlaunahafa á hverju stigi. Á yngsta stigi hlutu verðlaun: Kristján Eyberg Arnarsson, Jens Heiðar Guðnason og Steingrímur Ari Helgason. Á miðstigi hlutu verðlaun: Oskar Bartosz Parciak, Þórdís Ósk Þórðardóttir og sóttvarnarteymið: Helga Dögg Ólafsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Védís Ösp Einarsdóttir. Á elsta stigi hlaut Heimir Árni Erlendsson verðlaunin.

Foreldrafélag Hvolsskóla gaf verðlaunin og þökkum við því kærlega fyrir.

Þó ekkert væri röltið að loknum skóladegi á milli fyrirtækja voru það ánægð börn sem héldu heim á leið í lok skóladags.

Fleiri myndir frá deginum koma inn á fésbókarsíðu okkar.