Hogwartsþema lokið

Velheppnuðum þemadögum á elsta stigi lauk í gær við hátíðlega athöfn er heimavistarbikarinn var afhentur þeirri heimavist sem rakað hafði saman flestum stigum yfir tímabilið.

Dagurinn tókst vel í alla staði og geta nemendur elsta stigs svo sannarlega verið stoltir af afrakstri rúmlega tveggja vikna vinnu. Hófst dagskráin á úrslitaleik í Quidditch þar sem mættust lið úr heimavistum Slytherin og Hufflepuff. Eftir æsispennandi leik hlaut Hufflepuff Quidditch bikarinn. Að loknum leik settu nemendur sig í gestgjafagírinn og tóku á móti öllum bekkjum skólans og elsta hópi leikskólans. Utanaðkomandi dómnefnd mætti svo á svæðið og var úr vöndu að ráða. Stigakeppnin var orðin mjög jöfn þennan dag og ljóst að allar vistir áttu möguleika á að vinna og spennan því mikil. Dagskráin endaði svo á Just Dance keppni sem var glæsileg og bar Hufflepuff sigur úr býtum í danskeppninni. Síðast á dagskrá var að afhenda heimavistarbikarinn glæsilega og hlaut Ravenclaw hann að þessu sinni.

Fleiri myndir eru á fésbókarsíðu Hvolsskóla.