Á hverju hausti arka nemendur og starfsmenn á fjöll í héraði. Haustið í ár er engin undantekning á því og förum við nú í áttunda skiptið á tindana. Gangan gengur undir nafninu Tíu tinda ganga og er markmiðið að hver nemendi sem er hér hjá okkur í tíu ár hafi farið á tíu tinda í héraði við lok grunnskólagöngu.
Í ár fer 1. bekkur venju samkvæmt á Stóru-Dímon. 2.-4. bekkur gengur yfir Vatnsdalsfjall, 5.-7. bekkur upp á Þórólfsfell og 8.-10. bekkur á Þríhyrning.
Það er erfitt að ákveða daginn með fyrirvara þessi misserin þar sem veðurspá breytist ört. Eins og staðan er núna er fyrsti mögulegi uppgöngudagur á miðvikudaginn. Við stefnum því á þann dag og sem fyrr hvetjum við foreldra og aðra velunnara til að slást í för með okkur þegar af ferðinni verður.