Í lok skólaárs

Þetta viðburðarríka skólaár rann sitt skeið.  Veturinn sýndi okkur glöggt hvað hann getur boðið okkur upp á og í fyrsta sinni frá gosi í Eyjafjallajökli fyrir 10 árum, þurftum við að fella niður skólahald með öllu. Þá vegna þess að skólinn er fjöldahjálparstöð, nú vegna óveðurs sem gekk yfir landið. Þegar hylla fór undir vorið leit út fyrir að hópur starfsmanna væri að fara í verkfall sem hefði þá haft áhrif á skólahald. Það leystist úr því máli á síðustu stundu en þá sótti að okkur heimsfaraldurinn COVID-19 sem hafði gríðarleg áhrif á skólahaldið frá því í mars eins og alþjóð þekkir. Þessi margumræddi heimsfaraldur „neyddi“ okkur öll til að gera breytingar á lífsmynstri okkar og venjum. Sumt var erfitt, annað minna erfitt og enn annað auðvelt. Hvað sem því leið þá sýndi þessi tími okkur fram á ótalmargt. Kannski fyrst og síðast hve mikilvægt er að við getum staðið saman á tímum sem þessu, ekki bara við sem samfélag, ekki bara við sem þjóð, heldur við öll sem heimurinn. Þessi tími sýndi okkur meðal annars fram á að við getum, ef við ætlum okkur, breytt þróun loftslagsmálanna – má nefna að fenin í Flórens urðu tær á nokkrum dögum og í Kína sá í heiðan himinn! Hér heima var einkabíllinn í heimkeyrslunni meira og minna svo eitthvað sé nefnt.

Hvað okkur varðar hér í Hvolsskóla; starfsmenn, nemendur og foreldra, þá þurftum við að hugsa út fyrir boxið. Við þurftum að bregðast við því að takmörkun varð á öllu skólahaldi. Nemendur voru því að stórum hluta í heimakennslu eða fjarkennslu. Lítill hluti nemenda var hér í húsi hjá okkur og það gerði okkur kleift að taka á móti 1.-4. bekk en fylgja engu að síður þeim reglum og ramma sem Almannavarnir settu okkur. Kennarar þurftu á núll-einni að setja alla sína kennslu í gegnum TEAMS og nemendur og foreldrar þurftu að sama skapi að tileinka sér þessar breytingar hratt.

Allt hafðist þetta og við sigldum í land í sameiningu. Enn og aftur færum við ykkur öllum kærar þakkir fyrir samstarfið á þessum tímum.

Ein af breytingunum sem COVID-19 hafði í för með sér var breytt fyrirkomulag á skólaslitum og útskrift 10. bekkinga. Það fyrirkomulag mæltist vel fyrir og mögulega komið til að vera.

Í ár útskrifuðust 24 nemendur úr 10. bekk og halda nú á vit ævintýranna. Við óskum þeim og foreldrum þeirra alls hins besta og þökkum samstarf og samveru í gegnum tíðina.

Í haust koma til okkar 25 börn í 1. bekk og hefja þar með 10 ára grunnskólagöngu sína. Við hlökkum til að kynnast þessum nýja hópi.

Við í Hvolsskóla óskum ykkur góðs sumars og hlökkum til að sjá ykkur í haust. Skólasetning verður mánudaginn 24. ágúst.