Af Fræðslutorgi

Þann 4. febrúar síðastliðinn var elsta stig með opið hús í kjölfar þemadaga þar sem nemendur unnu með ýmis málefni er snúa að umhverfismálum. Hver bekkur vann út frá ákveðnum málaflokki en þeir voru: Náttúran og áhrif okkar á hana sem 10. bekkur fjallaði um í fjórum undirhópum, Framtíðarsýn og nýsköpun sem 9. bekkur vann með í fimm undirflokkum og Umhverfisvænn lífstíll sem 8. bekkur vann með í fimm hópum. Undirflokkarnir sem hóparnir í 10. bekk með voru: Lífbreytileiki, Loftslagsbreytingar, Sjávardýralíf og plastmengun og Orkugjafar og samgöngur. Undirflokkar 9. bekkjar voru: Vatn sem auðlind, Náttúruvernd, Tækni og endurnýting, Umhverfismál í Rangárþingi eystra og Sjálfbærni – auðlindir. Undirflokkar 8. bekkjar voru: Matarsóun, Nýting og flokkun – plast og pappír, Nýting og flokkun – raftæki og spilliefni, Föt – betri nýting og Umhverfismerktar vörur.

Á opnum degi settu krakkarnir upp kynningarbása um sín málefni. Þar gafst gestum og gangandi færi á að kynna sér málefnin hjá krökkunum sem höfðu sett efnið fram á margskonar hátt svo sem gert myndbandskynningar, veggspjöld, spurningarleiki eða spil sem og að hóparnir stóðu vaktina í öllum básunum og kynntu málefnin þar.

Á kynningardegi var matsnefnd á ferð sem tók út vinnu nemenda og veitti þremur hópum viðurkenningar í lok opins húss. Matsnefndina skipuðu þau María Rúnarsdóttir, Sigrún Ágústsdóttir og Sigurmundur Jónsson.

Verkefnið var að vanda mjög vel lukkað og skildi eftir mikinn fróðleik hjá nemendum en ekki síður hjá þeim sem litu við og kynntu sér málin.

Nemendur tóku stutta kynningu í básunum á ensku þann 5. febrúar fyrir kennara sem voru hér staddir frá Frakklandi og mæltist það mjög vel fyrir.

Myndir eru í myndasafni.