Úr Emstru-Botnum í Þórsmörk

Í gær fór vaskur hópur nemenda af elsta stigi gangandi frá Emstru-Botnum sem leið lá niður í Langadal. Rúta keyrði krakkana og fylgdarmenn í Botna og þaðan var lagt af stað um kl. 11:30 í gærmorgun – 35 börn og 7 fullorðnir. Ferðin er valáfangi á elsta stigi í Hvolsskóla en í fyrra var boðið upp á göngu yfir Fimmvörðuháls í vali og voru þá um 16 börn sem gengu yfir hálsinn.

Hópurinn fékk blíðuveður á leið sinni í gær og gekk þetta léttur í lund og rösklega – nutu þó þess fallega landslags sem fallega landið okkar hefur upp á að bjóða í leiðinni. Það tók hópinn 6 klukkustundir og 6 mínútur að ganga þessa rúmu 17 kílómetra, frá því að lagt var af stað þar til síðasti maður var kominn niður í Langadal. Í Langadal beið rútan hópsins og flutti hann að Básum þar sem hópurinn fékk að grilla hamborga áður en lagt var af stað til byggða. Ferðin í heild tók rétt um 13 klukkustundir og því án efa verið þreyttur en ánægður hópur sem lagðist á koddann í gær eftir frábært ferðalag: hreyfingu, gleði og samveru!

Fleiri myndir í myndasafni.