Þá er aðventan runnin í garð og síðasta fimmtudag voru jólaljósin tendruð í þorpinu og þá einnig á jólatrénu við Landsbankann. Kór Hvolsskóla söng nokkur lög við það tilefni og er meðfylgjandi mynd tekin þá.
Næstkomandi föstudag verður kórinn með afmælistónleika í íþróttahúsinu en hann varð 25 ára á síðasta ári. Vegna COVID ástands var ekki gerlegt að halda tónleikana þá en til stendur að halda þá núna á föstudag kl. 20:00. Með kórnum munu koma fram nokkrir fyrrum meðlimir kórsins sem og undirleikarar úr ýmsum áttum. Betri lýsingu er að finna í viðburðinum inni á facebook síðu Hvolsskóla.
Þar sem hraðpróf er skilyrði fyrir samkomu yfir 50 manns mun verða boðið upp á slíkt próf hér í Hvolsskóla milli kl. 15:30-18:30 á fimmtudaginn; opið öllum. Prófin eru gjaldfrjáls en nánari upplýsingar um skráningu í þau verða sendar út síðar.
Miðaverði á tónleikana er stillt í hóf eða eru 2000 krónur fyrir fullorðna, en frítt fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri í fylgd með foreldrum.
Þetta verður sannkölluð tónlistarveisla og mikil tilhlökkun að fá að hlýða á ljúfa jólatóna.