Jólakveðja

Við í Hvolsskóla sendum ykkur okkar allra bestu óskir um gleðilega jólahátíð og farsæld á komandi ári. Þökkum samstarf og samfylgd á árinu sem er að líða, ári sem hefur sannarlega reynt á samtakamátt, sveigjanleika og lausnamiðun á mörgum sviðum. Allir þeir sem mynda skólasamfélagið, nemendur, foreldrar, starfsmenn og stjórnsýslan hafa lagst á eitt við að  vinna okkur í gegnum þau verkefni sem okkur féllu í skaut og höfum við borið gæfu til að takmarka þau áhrif sem heimsfaraldurinn hafði á skólastarfið og er það þakkarvert.

Í dag voru merk tímamót hjá tveimur skólabílstjórum hjá okkur þar sem að heimferðin var þeirra síðasta ferð í skólaakstri eftir langt og farsælt starf. Þetta voru þeir Árni Ólafur Guðjónsson og Ásmundur Þór Þórisson. Árni Ólafur verður áfram okkar verktaki í Vestur-Landeyjum en með starfsmann á bílnum hjá sér. Við akstrinum í Fljótshlíðina tekur Magnús Guðmundsson. Um leið og við þökkum þessum tveimur heiðursmönnum fyrir frábært samstarf og óskum þeim velfarnaðar við ný verkefni, óskum við nýjum bílstjórum velfarnaðar í starfi.

Kennsla hefst að nýju þriðjudaginn 5. janúar. Á þessari stundu liggur ekki ljóst fyrir hvernig staðan verður þá en nánari tilkynningar verða sendar út fyrir þann tíma.

Starfsfólk Hvolsskóla