Í dag var síðasti skóladagur á þessu almanaksári og var jólagleði í öllum bekkjum. Börnin byrjuðu á stofujólum í morgun með kennurum sínum en síðan fóru þau elstu út í íþróttahús og kepptu bekkirnir þar í Gettu betur. Það var 10. bekkur sem bar sigur úr bítum en hefur sá bekkur þá sigrað þrjú ár í röð. Til hamingju!
Yngri krakkarnir voru á jólaballi í salnum okkar en þangað kom hún Edda Hlíf sem var hjá okkur sem stuðningsfulltrúi fyrir nokkrum árum og las jólasögu fyrir hópinn. Hún náði vel eyrum þeirra og þökkum við henni fyrir komuna. Krakkarnir dönsuðu síðan í kringum jólatréð, við undirleik Ingibjargar Erlingsdóttur.
Það var glaður hópur sem gekk hér út undir hádegið á leið í langþráð jólafrí.
Kæru nemendur, foreldrar og aðrir velunnarar skólans
Við óskum ykkur gleðilegra jóla og gæfuríks árs um leið
og við þökkum ykkur góðar stundir og samstarf á árinu sem er að líða.
Njótið vel komandi daga og hafið það sem allra best um hátíðirnar.
Við sjáumst að nýju þann 3. janúar á nýju ári en þá hefst kennsla samkvæmt stundatöflu. Samfellustarf hefst þann dag einnig.
Starfsmenn Hvolsskóla