Starfið komið á fullt skrið

Síðastliðinn miðvikudag var Hvolsskóli settur og fór nú loks fram hefðbundin athöfn í sal í upphafi skólaárs, eftir COVID-hlé. Við förum af stað inn í þennan vetur full tilhlökkunar þar sem við sjáum fram á nokkuð hefðbundið skólastarf, það er, með uppbroti, skemmtunum og gestum í húsi svo eitthvað sé nefnt.

Hænurnar tóku einnig vel á móti hópnum en þær hafa dafnað vel í nýja byrginu sínu í sumar undir vökulu auga hennar Östu sem hefur séð um að fóðra þær og vökva ræktunina í gróðurhúsinu. Sprettan í gróðurhúsinu hefur verið góð sem og á kartöflum og öðru grænmeti. Nú verður það nýtt í heimilisfræðikennslunni í vetur líkt og eggin frá hænunum hafa verið nýtt undanfarin ár. Til gamans má geta að á réttu ári, það er frá 23. ágúst 2021 til skólasetningar í ár verptu hænurnar samtals 1137 eggjum. Meðfylgjandi er mynd er af útisvæðinu okkar við miðstigið.