Öskudagur í Hvolsskóla

Öskudagur verður með mjög breyttu sniði í Rangárþingi eystra þetta árið líkt og á mörgum öðrum stöðum. Börn munu ekki geta farið á milli fyrirtækja og stofnana að loknum skóladegi og sungið fyrir glaðning. Þess vegna tóku Hvolsskóli, sveitarfélagið, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu höndum saman til að gera daginn sem eftirminnilegastan.

Skóladagurinn verður frá 8:10-13 og mæta allir í búningum. Fyrirtæki og stofnanir hafa sent glaðning í skólann sem nemendur fá að launum fyrir söng á morgun. Stillt verður upp básum fyrir hvert fyrirtæki sem tekur þátt og munu nemendur ganga á milli fyrirtækjanna og safna í pokann sinn. Fyrir fyrirtækin stendur starfsfólk skólans vaktina þar sem við takmörkum aðgengi annarra að skólanum, og afhendir glaðninginn. Um kl. 11 er fyrirhugað að marsera í kringum skólann og íþróttahúsið ef veður leyfir.

Einungis er ein heimferð skólabíla og er hún kl. 13. Ef nemendur nýta ekki ferð heim verður að láta bílstjórana vita af því. Skólaskjól er opið eftir skóla fyrir þá sem skráðir eru í það. Ef vistun er ekki nýtt biðjum við ykkur að láta vita af því. Samfellustarf fellur niður á morgun.