Hvað er UTÁ ?

Hvað er Uppeldi til ábyrgðar?

Uppeldi til ábyrgðar/uppbyggingarstefnan er uppeldisstefna sem hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi síðan haustið 2000. Stefnan er upprunnin í Bandaríkjunum og er einkum byggð á kenningum Williams Glasser geðlæknis. Diane Gossen einn helsti forsvarsmaður stefnunnar og samstarfsfólk hennar hefur unnið frumkvöðlastarf með þessa aðferðarfræði í þeim tilgangi að hafa áhrif á skólamenningu og agastjórnun.

Uppeldi til ábyrgðar byggist á ákveðinni samskiptatækni sem hjálpar nemendum og starfsfólki skólans að eiga jákvæð samskipti. Hver og einn tekur ábyrgð á sinni hegðun og allir fá að vaxa og njóta sín. Stefnan snýst um að leiðbeina börnum og unglingum við að beita sig sjálfsaga í samskiptum við aðra. Lögð er áhersla á lífsgildi sem hver og einn velur sér og hefur að leiðarljósi.

Reglum er fækkað en þær styrktar, svo allir þekki og viti hvað gerist ef þær eru brotnar. Reglurnar standa vörð um lífsgildin og skapa örugga fótfestu. Mikilvægt er að hafa í huga að allir geta gert mistök, það skiptir miklu máli að gera sér grein fyrir hvenær mistök hafa átt sér stað og leita lausna til að bæta fyrir mistökin og læra af þeim.

Nemendur vinna bekkjarsáttmála að hausti og ræða hlutverk nemenda og starfsfólks. Við vinnu á skólareglum, öryggisreglum og skýrum þolmörkum voru áhersluatriði Uppeldi til ábyrgðar höfð að leiðarljósi.